Slitastjórn Landsbankans vill rifta 450 milljóna króna greiðslu gamla Landsbankans til Stefnis, dótturfélags Arion banka, og 200 milljóna króna greiðslu til Auðar Capital og gæti svo farið að bæði fyrirtækin þurfi að greiða fjárhæðina til baka. Í báðum tilvikum er um að ræða peningamarkaðsinnlán sem fyrirtækin áttu í gamla Landsbankanum. Bankinn greiddi innlánin í millibilsástandinu sem skapaðist eftir að gamli bankinn fór í þrot aðfaranótt 7. október og áður en sá nýi var reistur við á rústum þess gamla tæpum tveimur sólarhringum síðar.

Málið er eitt af fjölmörgum riftunarmálum sem slitastjórn Landsbankans höfðaði í fyrrahaust gegn innlendum og erlendum bönkum.

Taka átti málin gegn Auði Capital og Stefni fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Slitastjórnin óskaði hins vegar eftir fresti vegna gagnaöflunar í málunum. Búist er við að málin verði tekin fyrir í ágúst. Af viðræðum við þá sem fengið hafa riftunarbréf frá slitastjórninni má ráða að þeim leiðist dráttur málanna enda skapi það óvissu þar til niðurstaða fáist. Óvíst er hvort niðurstaða fáist í málin í haust.

Fram kemur í síðasta ársreikningi Stefnis slitastjórn hafi krafist riftunar á tveimur kröfum. Annars vegar sé um að ræða rufn vegna sölu á skuldabréfum Eimskips í eigu Peningamarkaðssjóðs til Landsbankans tæpum mánuði fyrir fall bankans. Krafan í þessu eina máli nemur 1,6 milljörðum króna auk vaxta. Hins vegar sé að ræða kröfu um riftun á útgreiðslum Landsbankans á peningamarkaðsinnlánum sem voru á gjalddaga snemma í október árið 2008 til fimm sjóða í stýringu Stefnis. Upphæðin nemur samtals rúmum 1,4 milljörðum króna auk vaxta. Slitastjórnin krefst riftunar og endurgreiðslu á tveimur þeirra og hleypur það á 450 milljónum króna auk vaxta. Stefnir hefur mótmælt kröfunum og telur þær tilhæfulausar.

Svipuðu máli gegnir um kröfu slitastjórnarinnar á hendur Auði Capital, sem átti peningamarkaðsinnlán hjá gamla Landsbankanum upp á 200 milljónir króna. Fram kemur í ársreikningi Auðar Capital, að félagið hafi tekið til varna í málinu og hafni alfarið því að riftunin sé byggð á réttmætum grunni. Samkvæmt því séu litlar líkur á að félagið og viðskptamenn verði fyrir fjárhagslegu tjóni.