Slitastjórn Glitnis hefur höfðað skaðabótamál á hendur þeim Jóhannesi Baldurssyni og Elmari Svavarssyni, sem báðir eru fyrrverandi starfsmenn Glitnis.

Fram kemur í Fréttablaðinu í dag að þeim sé stefnt fyrir að hafa í september 2008 fært milljarða skuldbindingar frá  stöndugum félögum yfir á félög sem þá töldust ógjaldfær, Stím og Gnúp, án þess að nokkrar tryggingar kæmu á móti því. Með því hafi Glitni verið bakað mikið tjón.

Jóhannes var á þessum tíma framkvæmdastjóri markaðsviðskiptadeildar Glitnis en Elvar starfaði undir honum.

Eins og áður hefur verið fjallað um, enda er málið einnig til rannsóknar hjá embætti sérstaks saksóknara, voru skuldbindingarnar komnar til vegna fjölda framvirkra samninga með hlutabréf í Glitni og voru færðar frá félögum á borð við GT Capital ehf., í eigu athafnamannsins Gunnars Torfasonar, og BLÓ ehf., í eigu Óskars Eyjólfssonar, bónda í Hjarðartúni við Hvolsvöll. Báðir áttu hlut í Stími; Gunnar fimmtán prósent og BLÓ ehf. tíu prósent.

Nánar er fjallað um málið á vef Vísis.