Slitastjórn Kaupþings mun reyna að sækja greiðslu lána sem starfsmenn bankans fengu til hlutabréfakaupa hvar sem er í heiminum. Þeir fyrrum lykilstarfsmenn bankans sem flutt hafa lögheimili sitt erlendis munu því ekki sleppa undan riftunarkröfum. Þá mun slitastjórnin rifta flutningi lána þriggja fyrrum starfsmanna bankans yfir í einkahlutafélög í byrjun október 2008. Þetta staðfestir Ólafur Garðarsson, formaður slitastjórnar Kaupþings, við Viðskiptablaðið.

Slitastjórnin tilkynnti fyrr í dag að hún hefði rift niðurfellingu á lánum sem um 80 fyrrum starfsmenn gamla Kaupþings fengu til að kaupa hlutabréf í bankanum. Heildarfjárhæð lánanna er um 32 milljarðar króna og tæplega 15 milljarðar króna eru með persónulegri ábyrgð. Fyrrum yfirstjórnendur Kaupþings fengu flest lánin.

Mögulegt að semja um lengri frest og horft til greiðsluaðlögunarúrræða

Ólafur segir að lántakendurnir muni fá tíu daga frest til að annaðhvort greiða upp lánin eða semja um greiðslu þeirra. „Ef menn þurfa lengri frest eða einhverja tilslakanir þá munum við auðvitað skoða það í hverju tilviki fyrir sig. Ég óttast þó að hluti starfsmanna muni ekki geta staðið við þessar greiðslur. Við munum auðvitað horfa til þeirra úrræða sem bankarnir hafa verið að nota varðandi það fólk sem átt hefur í greiðsluerfiðleikum og gerum okkur alveg grein fyrir vandanum hjá sumum þeirra sem hér er um að ræða.“

Um 20 fyrrum starfsmenn skulda um 90% heildarfjárhæðarinnar sem um ræðir. Þeir hafa allir hætt störfum hjá Arion banka, sem reistur var á grunni Kaupþings, og flokkuðust allir sem lykilstjórnendur fyrir hrun. Aðspurður um hvort þeir sem skulda hundruð milljóna, eða jafnvel milljarða króna geti nýtt sér sömu úrræði, svo sem greiðsluaðlögun, og þeir sem skulda mun minni fjárhæðir segir Ólafur það vissulega rétt að það gæti reynst erfitt. „Aðstæður eru ekki alltaf sambærilegar. Okkar hlutverk er auðvitað að reyna að ná inn eins miklum peningum og hægt er í þrotabúið, en við horfum á hvert tilvik fyrir sig. Þú getur ekki búið til pening hjá þeim sem eiga ekki pening.“

Erlent lögheimili engin vörn og októbertilfærslum í félög verður rift

Allflestir helstu stjórnendur Kaupþings fyrir bankahrun hafa flutt lögheimili sitt erlendis. Þeirra á meðal eru Sigurður Einarsson og Hreiðar Már Sigurðsson sem voru með langhæstu lánin. Ólafur segir heimilisfesti ekki breyta afstöðu slitastjórnarinnar í þessu mál. „Við munum sækja fólk allstaðar, sama hvar það býr. Bréfin fara í fyrstu annaðhvort á heimili fólks eða til þeirra lögmanna. Svo sjáum við hvað setur.“

Slitastjórnin hyggst láta reyna á riftun á tilfærslu lána yfir í einkahlutafélög valinna starfsmanna Kaupþings þar sem slíkt verður hægt. Ólafur segir að lánatilfærslunni verði rift við þau félög sem voru sett á fót innan við sex mánuði frá þroti bankans. Samkvæmt skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis eru það félög í eigu Hannesar Frímanns Hrólfssonar, Ingvars Vilhjálmssonar og Guðna Níels Aðalsteinssonar, en lán þeirra allra vegna hlutabréfakaupanna voru færð inn í félög í október 2008. Leitað verður allar leiða til að rifta tilfærslu á lánum til félaga sem stofnuð voru fyrir þann tíma. Það eru meðal annars félög í eigu Kristjáns Arasonar og Hreiðars Má Sigurðssonar.