Slitastjórn Glitnis leggur til að slitastjórnir fái að ákveða við hvaða dag er miðað þegar úrskurðað er hverjir hafa rétt til að greiða atkvæði um nauðasamning fjármálafyrirtækis og fá greiðslu samkvæmt honum. Þetta kemur fram í umsögn slitastjórnarinnar við frumvarp um breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki. Frumvarpinu er ætlað að liðka fyrir gerð nauðasamninga.

Í umsögninni segir að þar sem kröfur á hendur fjármálafyrirtækjum í slitameðferð eru framseljanlegar sé nauðsynlegt að ákveða tiltekinn dag sem atkvæðisréttur og réttur til greiðslu skuli miðast við. Lagt er til að slitastjórnum verði heimilað að ákvarða þennan dag og skuli hann tilgreindur í frumvarpi að nauðasamningi. "Mun þetta gera það að verkum að slitastjórnir geta gengið úr skugga um að atkvæðisrétti og greiðslum sé rétt úthlutað til kröfuhafa," segir í umsögninni.

Alls voru 55 umsagnabeiðnir sendar vegna frumvarpsins um breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki. 15 aðilar hafa sent inn sína umsögn, þeirra á meðal nokkrar slitastjórnir, Samtök fjármálafyrirtækja og Fjármálaeftirlitið.