Slitastjórnir Landsbankans og Kaupþings hafa stefnt fyrrum stjórnendum og stjórnarmönnum til greiðslu tugmilljarða króna vegna meintra brota í starfi fyrir hrun. Mönnunum voru birtar stefnur í október. Málin sem eru aðskilin tengjast lánveitingum til tengdra aðila fyrir hrun og meintra brota við verðbréfaviðskipti.

Slitastjórn Landsbankans krefur þrjá fyrrum stjórnendur um samtals rúmlega 1,2 milljarða króna, þá Sigurjón Árnason, fyrrverandi bankastjóra, Yngva Örn Kristinsson, fyrrverandi framkvæmdastjóra verðbréfasviðs, og Steinþór Gunnarsson, fyrrverandi forstöðumann verðbréfamiðlunar bankans. Málið gegn þeim var þingfest 18. október síðastliðinn og varðar verðbréfaviðskipti Landsbankans í aðdraganda hrunsins. Yngvi Örn og Sigurjón Árnason staðfestu báðir í samtali við Viðskiptablaðið að þeim hafi verið stefnt. Unnið er að greinargerðum fyrir hina stefndu.

Málin sem slitastjórn Kaupþings hefur höfðað gegn fyrrverandi stjórnarmönnum og starfsmönnum bankans snúa að yfirtöku Kaupþings á láni sem Egla, dótturfélag Kjalars, fékk frá bandaríska bankanum Citigroup. Félögin voru í eigu Ólafs Ólafssonar.

Þeim sem stefnt hefur verið eru Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri bankans, Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður, stjórnarmennirnir Gunnar Páll Pálsson, Hjörleifur Jakobsson og Bjarnfreður Ólafsson. Þá hefur þeim Bjarka Diego, fyrrverandi framkvæmdastjóra útlána, og Guðmundi Þór Gunnarssyni, fyrrverandi viðskiptastjóra á útlánasviði bankans, verið stefnt. Um háar fjárhæðir er að ræða, en í heild eru stefndu krafðir um greiðslu 60 milljarða króna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.