Þeir aðilar sem fara með umráð fjármálafyrirtækja í slitameðferð kannast ekki við að hafa staðið að baki rúmlega 33 milljarða úttekt af gjaldeyri sem lá á gjaldeyrisreikningum hjá Seðlabanka Íslands. Samkvæmt tilkynningu bankans lækkaði gjaldeyrisforðinn um 33,6 milljarða vegna lækkunar á gjaldeyrisreikningum fjármálafyrirtækja í slitameðferð.

Steinunn Guðbjartsdóttir - Slitastjórn Glitnis
Steinunn Guðbjartsdóttir - Slitastjórn Glitnis
© BIG (VB MYND/BIG)

Páll Benediktsson
Páll Benediktsson
© Haraldur Jónasson (VB MYND/HARI)
Þegar Viðskiptablaðið hafði samband við slitastjórnir fjármálafyrirtækjanna sem falla undir þessa skilgreiningu virtist sem enginn vildi kannast við að standa á bak við þessar færslur. Slitastjórnir stóru bankanna þriggja, sem jafnan þykja líklegastar til að standa að baki jafn háum greiðslum og hér er um að ræða könnuðust ekki við að hafa fært slíkar fjárhæðir af reikningum Seðlabankans.

Feldís Lilja Óskarsdóttir
Feldís Lilja Óskarsdóttir
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Páll Benediktsson hjá slitastjórn gamla Landsbankans segir að umræddar færslur séu ekki á vegum þeirra og sömu svör fengust hjá Steinunni Guðbjartsdóttur hjá slitastjórn Glitnis og Feldísi Lilju Óskarsdóttur hjá slitastjórn Kaupþings. Hlynur Jónsson hjá Dróma, sem fer með slitameðferð Frjálsa Fjárfestingabankans og Spron, staðfesti einnig að þarna ætti Drómi ekki í hlut. Hjá Straumi fengust svipuð svör.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.