Dómur Hæstaréttar í máli kröfuhafa gegn þrotabúi gamla Landsbankans (LBI) frá í síðustu viku kemur ekki í veg fyrir að slitastjórnir greiði kröfuhöfum í erlendri mynt, að mati Steingríms J. Sigfússonar, þingmanns VG og fyrrverandi fjármálaráðherra. Hann sagði í viðtali á RÚV í dag Hæstirétt þurfa að gefa fyrirmæli um það hvað eigi að gera og hvort slitastjórnir séu skikkaðar til að greiða kröfuhöfum út í krónum.

Pétur Blöndal , þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði fyrir helgi dóminn svo mikilvægan að hann slagi upp í Icesave-dóminn sem féll Íslandi í vil fyrir EFTA-dómstólnum í byrjun árs. Pétur vísar í texta dómsins þar sem segir að „...það þvert á móti í samræmi við skyldur þeirra og meginreglur kröfuréttar að við úthlutun sé aðeins borgað út í krónum.“ Það, að mati Péturs, þýði að slitastjórnir verði að flytja heim gífurlegar eignir þrotabúanna í útlöndum (2.300 milljarða) og skipta þeim yfir í krónur. Þegar því er lokið sitji kröfuhafar eins og Íslendingar með krónur á bak við höft og geti ekki hreyft sig á meðan höftin vara.

Steingrímur sagði í samtali við RÚV dóm Hæstaréttar ekki jafn afgerandi. Hann benti þó á að samkvæmt honum eigi að nota gengi útgreiðsludags við greiðslu krafna. Það hefði t.d. gert greiðslu Icesave-samninganna mjög létta hefðu þeir verið samþykktir.