Fyrirséð er að slitastjórnir föllnu bankanna þurfi á næstunni að endurreikna greiðslur að andvirði að minnsta kosti um 835 milljarða króna sem hafa verið inntar af hendi til forgangskröfuhafa. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

Blaðið segir að eftir að ljóst varð að Hæstiréttur Íslands snéri í fyrradag við dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli sem tugir erlendra forgangskröfuhafa höfðuðu á hendur slitastjórn gamla Landsbankans (LBI) vegna ágreinings um gengisviðmiðun við útgreiðslur til kröfuhafa.

Málið snerist um lögmæti ákvörðunar slitastjórnar LBI að reikna virði hlutagreiðslna til forgangskröfuhafa í desember 2011 og maí 2012 – samtals um 595 milljarðar króna – miðað við gengi íslensku krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum hinn 22. apríl 2009 þegar Landsbankinn var tekinn til gjaldþrotaskipta. Hæstiréttur féllst hins vegar á kröfu forgangskröfuhafa um að gengið skyldi miðast við þann dag sem slitastjórnin innti kröfurnar af hendi.

Morgunblaðið segir að niðurstaða dómsins muni hafa fordæmisgildi fyrir aðrar hlutagreiðslur og jafnframt önnur fjármálafyrirtæki í slitameðferð.