Upp úr viðræðum flugvirkja og Samtaka atvinnulífsins fyrir hönd Icelandair slitnaði um fjögur leytið í nótt en verkfall flugvirkja hjá Icelandair hófst klukkan 6:00 í gærmorgun. Ekki hefur verið boðað til annars sáttafundar deiluaðila og hafa miklar tafir orðið á flugi hjá félaginu og er búið að aflýsa sjö af fimmtán flugferðum til og frá íslandi til áfangastað Evrópu.

Guðjón Arngrímsson upplýsingafulltrúi Icelandair segir í samtali við Morgunblaðið að flogið verði á átta áfangastaði, og verði hver vél sneisafull af farþegum. „Þetta er mjög erfið staða,“ segir Guðjón en hann segir félagið leggja kapp á að fá fólk sem ætli að millilenda á Íslandi til að fljúga á annan hátt á sinn lokaáfangastað.

„Við höfum bætt við flugferðum auk þess sem hluti farþega hefur verið sendur á hótel. Þá er unnið að því að finna ný flug fyrir farþega sem ætluðu sér að nota Keflavíkurflugvöll sem millilendingu.“ Segir Guðjón að allur dagurinn hafi farið í að reyna að leita að lausnum fyrir farþegana að því er Fréttablaðið greinir frá.

„Það hefur gengið ágætlega og búið er að leysa úr málum langflestra,“ segir Guðjón. „Heilt yfir gekk þetta ágætlega en þetta tekur mikinn tíma. Hver og einn þarf sína lausn og þá fylgir það óhjákvæmilega að fólki finnist skorta á upplýsingar og þetta taki of langan tíma.“