Helstu viðsemjendur á almennum og opinberum vinnumarkaði sem vinna að því að innleiða bætt vinnubrögð við gerð kjarasamninga á Íslandi, eða svokallaður SALEK hópur, hætti viðræðum í gærkvöldi.

Samkvæmt tilkynningu sem birt var á heimasíðu Samtaka atvinnulífsins er meginástæða þess að það slitnaði upp úr viðræðunum sú að samtök opinberra starfsmanna treystu sér ekki til að vinna áfram á þeim grundvelli sem var til umræðu.

Í tilkynningu frá SA segir „að hætta er því á að umsamdar kauphækkanir muni á endanum einungis skila mikilli verðbólgu, lækkun gengis krónunnar, hærri verðtryggðum skuldum og hærri vöxtum sem eru nú þegar margfalt hærri en í nágrannalöndunum."

„Haldi stéttarfélög opinberra starfsmanna áfram að halda á lofti kröfum um sérstakar launahækkanir umfram það sem samið hefur verið um á almennum markaði munu allir tapa . Það er sameiginleg ábyrgð allra samningsaðila að ná skynsamlegri niðurstöðu til að forða efnahagslegu stórslysi sem að óbreyttu stefnir í.“ segir Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.