Slitameðferð á Fyrirtækjaskuldabréfasjóði MP banka lauk í þessari viku eftir að þriðja og síðasta innlausn hlutdeildarskírteina var framkvæmd. Endurheimtuhlutfall eigenda hlutdeildarskírteina sjóðsins reyndist yfir 92%. Er greint frá þessu á vefsíðu Júpíters rekstrarfélags.

Þar segir að við fall viðskiptabankanna Glitnis, Landsbanka og Kaupþings hafi markaður verið með fyrirtækjaskuldabréf og -víxla óvirkur og verðmyndun verulega ábótavant. „Skipti þar litlu hvort um skuldabréf greiðslubærra fyrirtækja var um að ræða eða ekki. Af þessum sökum var lokað var fyrir innlausnir í öllum peningamarkaðssjóðum, blönduðum skuldabréfasjóðum og fyrirtækjaskuldabréfasjóðum rekstrarfélaga verðbréfasjóða á Íslandi. Í október 2008 hafði Fyrirtækjaskuldabréfasjóður MP hins vegar selt frá sér allar kröfur á áðurnefnda viðskiptabanka og hlutfall ríkistryggðra eigna nam um 47% af markaðsverðmæti sjóðsins,“ segir í tilkynningunni.

„Eftir að Fjármálaeftirlitið beindi þeim tilmælum til allra rekstrarfélaga verðbréfasjóða að slíta peningamarkaðssjóðum sínum ákvað stjórn Júpíters rekstrarfélags (áður MP sjóða) að grípa strax til sambærilega aðgerða varðandi Fyrirtækjaskuldabréfasjóð MP. Þess má geta að hvorki Fyrirtækjaskuldabréfasjóður MP Né Peningamarkaðssjóður MP nutu fyrirgreiðslu af hálfu hins opinbera, líkt og tilfellið var við uppgjör og innlausnir sjóða stóru bankanna þriggja.“