Tom Hicks, annar eigenda enska úrvalsdeildarliðsins Liverpool, hefur slitið viðræðum við Dubai International Capital, DIC, um sölu á 49% hlut í félaginu.

Í yfirlýsingu á vef Liverpool segir Hicks ekki verði framhald á viðræðum við DIC. „Ég og mínir samstarfsmenn höldum áfram að kanna aðra valkosti í tengslum við eignarhald á félaginu," sagði Hicks.

George Gillett, meðeigandi Hicks, er sagður hafa samþykkt í aðalatriðum að selja 49% af 50% hlut sínum til DIC og 1% til Hicks til þess að gera hann að meirihlutaeiganda í félaginu. Hicks og Gillett keyptu Liverpool fyrir ári síðan á 219 milljónir punda.