Í könnun um stöðu og framtíðarhorfur hjá 400 stærstu fyrirtækjum landsins telja stjórnendur hjá um 48% fyrirtækjanna núverandi aðstæður í efnahagslífinu vera slæmar eða mjög slæmar, um 36% telja þær hvorki góðar né slæmar, en einungis um 16% telja þær vera góðar.

Þetta kemur fram í frétt á vef Samtaka atvinnulífsins. Þessi niðurstaða er mun lakari en fram hefur komið í fyrri reglubundnum könnunum um sama efni eða allt frá árinu 2002. Ljóst er að fjárfesting í atvinnulífinu dregst nú hratt saman en tekið skal fram að könnunin var gerð á tímabilinu 13. febrúar til 12. mars 2008, þegar vísitala gengisskráningar krónunnar var að meðaltali 131, en næstu daga á eftir lækkaði gengi krónunnar verulega og var vísitala gengisskráningar tæplega 155 stig í síðari hluta marsmánaðar.

Þegar könnunin var gerð voru stýrivextir Seðlabankans 13,75% og spáðu forsvarsmenn stærstu fyrirtækja landsins að vextirnir yrðu 11% eftir 12 mánuði, segir í frétt SA.

Stjórnendur stærstu fyrirtækja landsins voru hins vegar á þessum tíma heldur bjartsýnni á aðstæður í efnahagslífinu þegar litið var fram í tímann og telja margir að núverandi óvissa verði ekki mjög langvinn.