Könnun Englandsbanka á aðstæðum á lánamarkaði sýnir að sögn Financial Times að útlánastofnanir hafi dregið úr umsvifum sínum síðustu mánuði og þær búist við enn meiri samdrætti á yfirstandandi ársfjórðungi.

Á sama tíma sýnir vísitala um umsvif í þjónustugeiranum – prímusmótornum í breska hagkerfinu – samdrátt. Sumir sérfræðingar telja að Englandsbanki muni neyðast til þess að lækka stýrivexti í þessum mánuði eða í maí.

Fram kemur í frétt Financial Times að könnun Englandsbanka hafi leitt í ljós að samdráttur í útlánum sé tilkomin vegna þess að lánveitendur eru svartsýnir á efnahagshorfurnar og áhættufælnir, en ekki vegna þess að þeir sjálfir búi við skert aðgengi að fjármagni. Þeir geri nú meiri kröfur til lántaka, lækki hámarkslán og hækki vexti á þeim útlánum sem veitt eru.

Fram kemur i úttekt Englandsbanka að lánveitendur hafi einnig dregið úr lánveitingum til fyrirtækja – sérstaklega á atvinnufasteignamarkaðnum – og jafnframt hafi dregið úr eftirspurn meðalstórra fyrirtækja eftir lánveitingum sökum minni fjárfestingar. Hins vegar er búist við aukinni eftirspurn frá vogunarsjóðum og stofnanafjárfestum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .