Um 467 þúsund manns var sagt upp í Bandaríkjunum í júní sem er töluvert mera en greiningaraðilar höfðu gert ráð fyrir.

Greiningaraðilar á vegum Bloomberg fréttaveitunnar gera ráð fyrir að atvinnuleysi vestanhafs mælist 9,5% í júní (var 9,4% í maí). Í upphafi árs hafði bandaríska viðskiptaráðuneytið spá allt að 10% atvinnuleysi á vormánuðum og því má segja að atvinnuleysi lítillega undir spá ráðuneytisins. Hvað sem því líður hefur atvinnuleysi nú ekki verið meira í Bandaríkjunum frá því í ágúst 1983 þegar mældist 9,1%.

Samkvæmt tölum frá viðskiptaráðuneytinu vestanhafs hafa um 2,7 milljónir manna misst vinnuna frá því í desember 2007. Talið er að um 4-500 þúsund hafi fengið vinnu fljótlega aftur, í það minnsta tímabundið.

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna sagði við fjölmiðla í gær að hann hefði verulegar áhyggjur af þróun atvinnumála þar í landi. Hann sagði að skapa þyrfti ný störf en til þess þyrfti fjármálageirinn að komast í gang á ný.

„Fjármálamarkaðir hafa náð ákveðnu jafnvægi og það sama á við um íbúðamarkaðinn,“ sagði Obama.

„En það, hversu margir eru enn að missa vinnuna, segir okkur að fyrirtæki eru enn að berjast fyrir lífi sínu. Þetta er keðjuverkun. Einstakling er sagt upp og hann hættir að versla við ákveðin fyrirtæki af því að hann hefur minna á milli handanna. Það fyrirtæki þarf þá að segja upp starfsfólki og sama keðjuverkun fer í gang. Við þurfum að snúa þessu við.“

Samkvæmt nýjustu tölum viðskiptaráðuneytisins misstu um 519 þúsund manns vinnuna í apríl og um 322 þúsund manns misstu vinnuna í maí. Í júní voru um 14,7 milljónir manna atvinnulaus.