Millilandaflug hefur gengið sæmilega frá hádegi, þegar fyrstu vélar tóku að hefja sig á loft eftir blindkóf og aftakaveður sem geisað hefur á Suðurnesjum frá því í morgun. Áður en það skall á tókst vél sem var að koma frá Kanaríeyjum að lenda um klukkan 6 í morgun og rétt fyrir klukkan hálfátta lenti flutningavél á vegum Bláfugls en síðan lá flug niðri að sögn Stefáns Thordersen, framkvæmdastjóra öryggissviðs Flugmálastjórnar á Keflavíkurflugvelli, þar til tvær vélar sem höfðu neyðst til að lenda á Egilsstöðum og Akureyri komu þaðan rétt fyrir hádegi. Stefán segir að flug gangi hægt enda þurfi að hreinsa ísingu af vélum og ryðja flugbrautir. Bremsuskilyrði hafa verið slæm.

„Við höfum verið að kljást við óhagstæðan sterkan hliðvarvind sem hefur hamlað flugi og því miður er veðurspáin slæm. Seinni partinn er spáð hvössum vindi og ofankomu, og því ekki bjart útlit hvað varðar flug síðdegis og í kvöld,” segir Stefán.

Um 600 farþegar bíða

Hann segir að miðað við fjölda véla megi ætla að um 600 farþegar bíði nú í Leifsstöð eftir að komast á brott. Flugrekstraraðilar geri sitt besta en þó sé ljóst að margir hafi misst af tengiflugi og vandkvæðin með millilandaflugið setji strik í ferðaáætlanir margra.

Tvær flugvélar af gerðinni Boeing 757 á leið frá Bandaríkjunum neyddust til að lenda á Reykjavíkurflugvelli kl. 6:42 og 6:48 í morgun vegna óveðursins sem geisaði á Suðurnesjum. Tókust lendingar flugvélanna án vandkvæða. Þriðja flugvélin sem einnig er af gerðinni Boeing 757, á leið frá New York var hins vegar snúið til Egilsstaða. Á tímabili leit út fyrir að flugvélin myndi síðan lenda á Reykjavíkurflugvelli en henni tókst síðan að lenda á Keflavíkurflugvelli um kl. 12:30.