Ben S. Bernanke seðlabankastjóri Bandaríkjanna hafði veruleg áhrif til lækkunar á erlendum mörkuðum í gær eftir að hann sló á vangaveltur um frekari örvunaraðgerðir af hálfu seðlabankans með kaupum á skuldabréfum á markaði. Er sagt frá þessu í Morgunpósti IFS Greiningar. Bernanke staðfesti einnig við þingið í gær að vextir yrðu líklegir til að haldast lágir út árið 2014. Þá hafa verðbólguhorfur í BNA versnað með hærra olíuverði á markaði undanfarið.

Hlutabréfaverð lækkuðu á markaði í gær í kjölfar ummæla Bernanke. S&P 500 vísitalan lækkaði um 0,5% í Kauphöllinni í New York í gær, einnig lækkuðu vísitölur í Asíu. Krafan á 10 ára ríkisskuldabréfi hækkaði um 3 bp í 1,98%, vísitala bandaríska dollarsins hækkaði um 0,7%, framtíðarsamningar með gull lækkuðu í gær um 4,3%.