„Menn höfðu ekki hugmynd um það hvernig þetta yrði borgað. Þeir höfðu ekkert í höndunum sem benti til þess að bankinn gæti borgað þetta. Þessir menn af öllum ættu að vita að Kaupþing væri að fara á hausin,“ segir Björn Valur en fjárlaganefnd Alþingis hefur árangurslítið reynt að rekja slóð þrautavaralánsins sem Seðlabankinn veitti Kaupþingi 6. október árið 2008. Fyrir liggur að lánið nam 500 milljónum evra, um 80 milljörðum króna á núvirði, og var það veitt án veð til fjögurra daga. Það var millifært í þremur hlutum á reikning Kaupþings hjá Deutsche Bank í Frankfurt í Þýskalandi og endar slóðin þar.

Helmingurinn hefur skilað sér til baka

Eins og vb.is, fréttavefur Viðskiptablaðsins greindi frá frá í dag, afgreiddi fjárlaganefnd í morgun skýrslu sem senda á Alþingi. Þar er farið yfir lánveitinguna, .s.s. ástæðu þess að lánið var veitt, og óskað eftir því að Alþingi þrýsti á Seðlabankann að fá afrit af símtali á milli þeirra Davíðs Oddssonar, þá seðlabankastjóra, og Geirs H. Haarde, þá forsætisráðherra, þar sem ákvörðun um lánveitinguna var tekin.

Tæpur helmingur lánsfjárins, um 255 milljónir evra, skilaði sér til baka við söluna á FIH, banka Kaupþings í Danmörku í desember árið 2010. Nefndin hefur þrisvar sinnum sent Seðlabankanum fyrirspurn um málið en ávallt fengið neitun á þeim forsendum að efni símtalsins sé bundið trúnaði.

Björn Valur Gíslason, formaður fjárlaganefndar, segir í samtali við vb.is ekki hægt að sætta sig við þetta. Þingið verði að beita einhverjum öðrum brögðum til að fá upplýsingar úr seðlabankanum um málið.