*

miðvikudagur, 19. febrúar 2020
Innlent 11. nóvember 2018 19:01

Á slóðum DiCaprio

Sigurður Hilmarsson, nýr forstöðumaður upplýsingatæknisviðs Bláa lónsins, slakaði á eftir að hann hætti sem forstjóri Annata.

Höskuldur Marselíusarson
Fyrrverandi forstjóri Annata, Sigurður Hilmarsson sem tekið hefur við forstöðu hjá Bláa lóninu er forfallinn fótboltaáhugamaður. Hann segir ferðalag til PhiPhi eyju í Taílandi með dætrum sínum standa upp úr síðustu árin.
Haraldur Guðjónsson

„Það eru mörg spennandi hugbúnaðarverkefni hjá Bláa lóninu, umhverfið er gott og mörg tækifæri hafa verið að skapast hér í kringum alla starfsemina. Nú eru 15 manns á sviðinu og þeim mun fjölga mikið á næstu mánuðum,“ segir Sigurður Hilmarsson, nýr forstöðumaður upplýsingatæknisviðs Bláa lónsins.

„Það starfa hér í heildina 850 manns, enda tvö hótel, þrír veitingastaðir, alls konar húðvörugerð, nýstofnað rútufyrirtæki og svo auðvitað lónið sjálft svo þetta er orðin mjög víðtæk starfsemi. Mitt hlutverk verður að styðja við vöxt og stafræna þróun fyrirtækisins en við viljum vera fararbroddi við að gera verðlagningu og bókanir sjálfvirkar út frá eftirspurn á hverjum tíma og þannig bæta upplifun viðskiptavina.“

Sigurður starfaði áður sem forstjóri hugbúnaðarfyrirtækisins Annata þar sem störfuðu um 200 manns við hugbúnaðargerð, en hann hætti þar í byrjun ársins.

„Ég seldi fyrirtækið mitt inn í Annata á sínum tíma og tók við rekstrinum, fyrst hér heima og síðar sem forstjóri. Eftir að ég hætti þar ákvað ég að taka mér langt frí fyrst ég gat það og hef ég haft það mjög náðugt það sem af er ári og náð að hvíla mig og núllstilla, þangað til þessi staða hjá Bláa lóninu vakti athygli mína,“ segir Sigurður.

Kona Sigurðar, Tinna Björk Hjartardóttir tölvunarfræðingur sem starfar hjá Marel, hafði starfað með honum meðan hann rak sitt eigið fyrirtæki, en það var síðan selt inn í Annata. Saman eiga þau einn sex ára gamlan son.

„Það er gott að hafa skilning á störfum hvort annars, við getum bæði leitað ráða og blásið. Okkur finnst gaman að ferðast saman og förum mikið á skíði hérna heima. Síðan er ég áhugamaður, konan vill meina forfallinn, um fótbolta og horfi ég svolítið á hann,“ segir Sigurður.

„Ég styð Stjörnuna og Manchester United og höfum við farið saman á leiki í Englandi ásamt tengdapabba. Síðan á ég tvær dætur úr fyrra hjónabandi, 20 og 22 ára, auk fósturdóttur. Stendur upp úr síðustu árin ferð sem við fórum með dætrunum til Malasíu og Taílands, þar með talið til hinnar ægifögru PhiPhi eyju sem myndin The Beach með Leonardo DiCaprio var tekin upp á.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.