Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna hefur frestað boðuðum verkfallsaðgerðum félagsmanna sinna sem áttu að hefjast í næstu viku. Frestunin gildir meðan hættustig almannavarna vegna kóronaveirunnar Covid-19, sem talin er upprunnin í Wuhan borg í Kína, er í gildi.

Í yfirlýsingu LSS um málið segir að samningsaðilar treysti því að frestunin verði ekki nýtt til að tefja samninga og samningsaðilar haldi áfram viðræðum með sama krafti „eins og að verkföllum hafi ekki verið frestað.“ Frestunin er eins og áður segir í gildi þar til Almannavarnir hafi aflýst hættustigi. Undir yfirlýsinguna skrifar Magnús Smári Smárason formaður LSS.

Í gær skoruðu Ríkislögreglustjóri, sóttvarnarlæknir og landlæknir á þá aðila sem eiga í kjaraviðræðum að enda verkfallsaðgerðir og koma í veg fyrir fyrirhugaðar aðgerðir að því er mbl.is greinir frá.

„Líklegt má telja að verkfallsaðgerðir muni draga úr þeim opinberu sóttvarnaaðgerðum sem nú eru í gangi gegn COVID-19 með ófyrirséðum afleiðingum fyrir lýðheilsu hér á landi. Þá munu verkföll án efa hafa veruleg áhrif á veitingu heilbrigðisþjónustu,“ segir m.a. í minnisblaði embættismannanna.