Slóvakía fékk í dag grænt ljóst á að verða sextánda ríkið til að taka upp evruna sem gjaldmiðil í byrjun næsta árs. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) og Evrópski seðlabankinn sögðu að landið hefði staðist öll nauðsynleg efnahagsleg skilyrði til upptöku evru.

„Slóvakía er reiðubúið að taka upp evru 1. janúar árið 2009", sagði Joaquin Almunia, sem fer með efnahags- og peningamál í framkvæmdastjórn ESB.

Framkvæmdastjórnin sagði að fjármálaráðherrar og leiðtogar aðildarríkja evrunnar myndu greiða atkvæði um aðild Slóvakíu að efnahags- og myntbandalaginu næstkomandi júlí. Verði aðildin samþykkt, eins og fastlega er gert ráð fyrir, verður Slóvakía fjórða landið af hinum nýju aðildarríkjum ESB - sem hafa gengið í sambandið frá því árið 2004 - til að taka upp evruna.

Evrópski seðlabankinn varaði hins vegar Slóvakíu við því að bankinn hefði „töluverðar áhyggjur" af því að verðbólga myndi hækka umfram meðaltal innan evrusvæðisins í framtíðinni vegna ósveigjanlegs vinnumarkaðar og hækkandi orkuverðs.

Seðlabankinn kallaði eftir því að stjórnvöld myndu hraða efnahagsumbótum og auka samkeppni í framleiðslugeirum atvinnulífsins, sérstaklega í orkuiðnaði. Hagkerfi Slóvakíu hefur vaxið hratt undanfarinn áratug og á síðasta ári mældist hagvöxtur meira en 10%.

Framkvæmdastjórn ESB sagði að verðbólga í Slóvakíu hefði mælst 2,2% á ársgrundvelli í marsmánuði - sem er einu prósentustigi minna heldur en leyfilegt hámark til að geta tekið upp evruna. Ríki sem vilja taka upp evruna verða hafa verðbólgu sem mælist ekki hærri en 1,5 prósentustigi yfir meðaltali þeirra þriggja evruríkja sem hafa lægstu verðbólguna.

Framkvæmdastjórnin sagði einnig að ríkisstjórnin þyrfti að vera á varðbergi gagnvart því að viðhalda lágri verðbólgu, og varaði við því að slíkt kynni að fela í sér að halda aftur launahækkunum, draga úr opinberum útgjöldum og auka frjálsræði í efnahagslífinu.

Pólland, Tékkland, Ungverjaland, Eistland, Lettland, Litháen, Búlgaría og Rúmenía eru hins vegar enn ekki reiðubúin til að taka upp evruna, sagði framkvæmdastjórnin sökum hárrar verðbólgu og mikils viðskiptahalla.