Heldur virðist hafa slegið á neyslugleði landsmanna undanfarið ef marka má þróun greiðslukortaveltu, segir greiningardeild Glitnis.

?Heildarvelta kreditkorta í október var ríflega 20 milljarðar króna og minnkaði milli mánaða um 12%. Ekkert lát er þó á neyslu í útlöndum en erlend kreditkortavelta jókst um 3,5% milli mánaða þrátt fyrir lítilsháttar styrkingu krónu á tímabilinu.

Velta vegna notkunar debetkorta í innlendum verslunum nam hins vegar tæpum 17 milljörðum króna í síðasta mánuði og jókst um 4,7% milli mánaða. Samanlagt var því ríflega 5% samdráttur milli mánaða í þessum tveimur undirþáttum kortaveltu sem að okkar mati lýsa best neysluhegðun landans,? segir greiningardeild Glitnis.

Korta velta góður kvarði á einkaneyslu

?Kreditkortavelta ásamt debetkortaveltu í innlendum verslunum er allgóður kvarði á þróun einkaneyslu hérlendis, enda eru kortafærslur að baki meirihluta neyslu. Helst eru það stærstu einstöku neysluvörur á borð við bifreiðar sem greiddar eru á annan hátt.

Í október nam raunvöxtur kreditkortaveltu frá sama tíma í fyrra 7,5% en debetkortavelta í hérlendum verslunum stóð hins vegar í stað. Samanlagt er raunvöxtur veltu í þessum tveimur liðum 4% á undanförnu ári og hefur hægt nokkuð á vextinum frá undanförnum mánuðum þegar hann mældist um það bil 7%.

Þegar við bætist að verulega hefur dregið úr nýskráningum bifreiða frá sama tíma í fyrra samkvæmt tölum Umferðarstofu má draga þá ályktun að vöxtur einkaneyslu á síðustu mánuðum ársins kunni að reynast lítill sem enginn ef svo heldur fram sem horfir,? segir greiningardeildin.