Þegar slúðrað er um yfirtökur á fyrirtækjum í Bretlandi má alltaf giska á að íslendingar verði með í för. Líkurnar eru sæmilegar góðar á að maður hafi rétt fyrir sér. Breska dagblaðið Times var með orðrómsfrétt um að fjárfestingabanki, sem ekki var nefndur, hefði hug á að yfirtaka breska fjármálafyrirtækið Collins Stewart. Í kjölfarið spurði fréttastofa DowJones verðbréfamiðlara, sem er nafnlaus í fréttinni, um hugsanlegan kaupanda.


"Einhver sem hefur áhuga á að vera umfangsmikill í London, og er ekki mjög sýnilegur. Kaupþing kemur fyrst til hugar, en fyrirtæki eins og Bear gætu líka verið áhugasamir." The Bear Stearns Companies er með stærstu fjárfestingabönkum í heimi.
Við opnun markaðar hækkaði Collins Stewart um 1,6% en við lok dags hafði gengið lækkað um 2,56%. Markaðsvirði Collins Stewart er 531 milljón punda eða um 67 milljarðar króna.