Stefán Ari Stefánsson tók nýlega við starfi mannauðsstjóra Reiknistofu bankanna eftir 19 ár hjá Valitor. Það má hinsvegar segja að stærsta breyting á hans starfsferli hafi verið fyrir tæpum áratug.

Stefán er viðskiptafræðimenntaður og vann sem sérfræðingur á fjármálasviði Valitor fyrsta áratuginn eftir útskrift úr háskólanum, en færði sig yfir í mannauðsmálin og hefur ekki litið til baka síðan.

„Það kom mér mjög á óvart, enda kannski blasir ekki beint við að sérfræðingur á fjármálasviði taki við svona starfi, en það var eitthvað sem fólk sá í mér,“ segir Stefán, sem hafði að vísu haft orð á því á skrifstofunni að hann vildi breyta til.

Fyrirtækið óx hratt næstu ár, úr um 160 starfsmönnum þegar hann tók við stöðunni, í um 450 í þremur löndum.

Stefán er giftur og á þrjá stráka frá 8 til 15 ára. Hann hefur gaman af fótbolta og hjólar mjög mikið. „Þegar ég vann hjá Valitor hjólaði ég á hverjum degi til vinnu úr Grafarvoginum í Hafnarfjörðinn. Leiðin liggur í gegnum fjögur sveitarfélög, frá Reykjavíkur í gegnum Kópavog, þá Garðabæ og loks inn í Hafnarfjörðinn.“

Hann segir ferðina hafa tekið nokkuð mislangan tíma„Ég hef alveg verið yfir klukkutíma að hjóla þetta í vondu veðri og hálku. Á móti gat þetta svo verið allt niður í hálftíma að sumri til.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .