*

fimmtudagur, 22. ágúst 2019
Fjölmiðlapistlar 13. janúar 2019 13:37

Slysamyndir

Myndir segja þó ekki aðeins fréttir, þær geta sumar sagt sögu sem engin frétt gæti öðru vísi sagt.

Andrés Magnússon
Haraldur Guðjónsson

Miklar fréttir voru sagðar af hörmulegu banaslysi við Núpsvötn á þriðja degi jóla, en þar fór bifreið út af brú með illskiljanlegum hætti. Tveir létust samstundis og aðrir slösuðust mikið, þar á meðal börn, en þarna voru tvær erlendar fjölskyldur saman á ferð.

Fréttin vakti auðvitað athygli ein og sér, sár skellur inn í jólahátíðina, en einnig var hún höfð til marks um aukinn umferðarvanda vegna ferðamanna, því álagið á þjóðvegi hefur stóraukist og fáir erlendir ferðamenn vanir þeim erfiðu aðstæðum, sem skapast geta á íslenskum vegum og í íslenskum veðrum.

En það var þó kannski ekki síður myndbirting frá slysstað, sem margir stöldruðu við, gerðu jafnvel harðorðar athugasemdir við. Þar á meðal var hjúkrunarfræðingur á bráðadeild, sem taldi myndirnar nánast teknar í annarlegum tilgangi og dró heilindi miðlanna í efa:

Björgunaraðgerðir í rauntíma, verðum að fá fleiri klikk á fréttirnar okkar, verðum að selja fleiri fréttir, skítt með siðferðið, skítt með tilfinningar fórnarlambanna, skítt með friðhelgi einkalífsins, skítt með rétt viðbragðsaðila til að fá að vinna án þess að vera ljósmyndaður.

Nú hefur það vissulega verið fremur fátítt hér á landi að fréttamyndir séu birtar af slysstað meðan aðgerðir standa yfir, en það er þó alls ekki óþekkt.

Þarna hagaði svo til að einn af fyrstu mönnum á vettvang var leiðsögumaðurinn Adolf Ingi Erlingsson, sem flestir landsmenn þekkja sjálfsagt af löngum ferli sem fréttamanns. Hann tók myndir þar á staðnum (líkt og vafalaust fleiri) og sendi til fjölmiðla. Þær myndir sýndu fyrst og fremst slysstaðinn, staðhætti og bílflakið, en einnig mátti greina á sumum þeirra fólkið, sem fyrir slysinu varð. Það var engan veginn í forgrunni og íslenskir fjölmiðlar gættu þess að setja þann hluta myndarinnar úr fókus.

Ekkert bendir til þess að myndatakan hafi í nokkru truflað aðgerðir á slysstað eða að þar hafi verið gengið fram með óviðeigandi hætti á nokkurn hátt.

Þarna átti sér stað hræðilegt slys, sem enginn deilir um að hafi verið fréttnæmt og vakti raunar mikla athygli langt út fyrir landsteinana. Myndirnar og birting þeirra voru eðlilegar og eins varfærnar og vera mátti -  bíllinn þekktist ekki og fórnarlömbin ekki heldur, þær höfðu sjálfstætt fréttagildi og sögðu sögu, sem trauðla mátti segja með orðum einum. Umfram allt sögðu þær mikla sögu af slysinu og hafa vafalaust forvarnagildi sem slíkar, forvarnagildi, sem frásögn í orðum hefði ekki haft.

Við blasir að fólkið, sem lenti í slysinu, bar engan frekari skaða af myndbirtingunni. Á hinn bóginn minntist hjúkrunarfræðingurinn á „rétt viðbragðsaðila til að fá að vinna án þess að vera ljósmyndað[i]r," sem rétt er að staldra við. Nú finnst vafalaust flestum betra að vinna fjarri kastljósi fjölmiðla, en það er fráleitt að viðbragðsaðilar, sem sinna björgun á slysstað (á opinberum vettvangi)  hafi sjálfstæðan rétt til þess að vera ekki myndaðir. Ekki frekar en fjölmiðlar bíða eftir að húsið sé brenni til grunna og slökkviliðið fari til þess að taka myndir af brunanum.

Það er hlutverk fjölmiðla að segja fréttir með sem greinarbestum og nákvæmustum hætti og snar þáttur í því er að taka myndir af vettvangi. Þeir mega auðvitað ekki trufla starfið, enda þekkjast þess nánast engin dæmi. Viðbragðsaðilar gera sér góða grein fyrir hlutverki fjölmiðla við þessar aðstæður, enda eiga þeir oftast gott samstarf með gagnkvæmum skilningi á störfum hvers annars.

Þá er auðvitað óminnst á hitt, að fjölmiðlar hafa þannig iðulega aflað og varðveitt ómetanlegar heimildir um slys og aðra atburði, sem hafa reynst lögreglu, slökkviliði og öðrum mikilvæg gögn við rannsókn mála.

Eru svona myndir teknar og birtar til þess að snapa smelli? Ógæfa annarra höfð að féþúfu, líkt og hjúkrunarfræðingurinn ýjar að? Nei, það er ekki hið beina samhengi. Starfsemi fjölmiðla þarf hins vegar að fjármagna og það tekst því aðeins ef þeir flytja fréttir, sem eru upplýsandi og fólk er forvitið um. Það er þeirra helsta aðhald og ábending um efni og efnistök.

Þessar myndir voru fréttnæmar og þess vegna voru þær birtar, af því að lesendur og áhorfendur vildu og þurftu að vita meira um slysið, tildrög og afleiðingar. - Gengu þeir of langt? Nei, þar var farið fram af varfærni og ekki meira sýnt en þurfti.

***

Þess vegna kom hin mikla hneykslan margra vegna myndbirtingarinnar fjölmiðlarýni nokkuð á óvart. Hvað þá þegar ljósmyndarinn og miðlarnir voru uppnefndir papparazzar og þaðan af verra. Þeir voru að flytja nauðsynlegar fréttir og gerðu það eins vel og unnt var. Skrásettu söguna.

Eða vilja menn að aðeins séu sagðar góðar fréttir og þær myndskreyttar með fögrum myndum, en látið vera að segja fréttir af því sem miður fer eða voðalegast er? Nei, hlutverk fjölmiðla er að segja fréttir og þær eru stundum hryllilegar. En það er ekki minni ástæða til þess að segja þær eða birta með myndir, almenningi til upplýsingar.

***

Það er full ástæða til þess að ræða myndbirtingar fjölmiðla nánar, enda eru þær snar þáttur allrar fjölmiðlunar og erfitt að upphugsa þá frétt, sem mynd bætir ekki einhverju við. Oftast bæta þær miklu við, jafnvel þó þær segi aðeins sömu sögu og textinn, en stundum eru þær nánast öll fréttin.

Myndir segja þó ekki aðeins fréttir, þær geta sumar sagt sögu sem engin frétt gæti öðru vísi sagt. Oft mun stærri sögu og stundum aðeins tilfinningahrif, sem á einhvern hátt virðast segja alla sögu.

Þar eru voveiflegir atburðir ekki undanskildir. Við þekkjum flest myndir eins og af hinum fallandi hermanni í spænsku borgarastyrjöldinni eftir ljósmyndarann Robert Capa, hinum brennandi víetnamska munki, sem Malcolm Browne tók í Saigon 1963, eða af litla sýrlenska drengnum í flæðarmálinu, sem blaðamaðurinn Nilüfer Demir tók 2015. Þær sögðu mikla sögu, ekki aðeins af atburðinum, heldur stærra samhengi og huglægari atriðum. Sumar geta jafnvel sagt of mikla sögu, virst vera fréttamyndir en er kannski ekki síður ætlað að hafa áhrif á skoðanir fólks.

Í þeim efnum þarf að gæta varfærni, en ekki þannig að fréttin sé ekki öll sögð.