Stóru kauphallirnar hafa verið að tapa í baráttunni við hlutabréfamarkaði vaxtarlanda. Þetta er niðurstaða rannsóknar ráðgjafarfyrirtækisins Ernst & Young, að því er fram kemur í þýska viðskiptablaðinu Handelsblatt í dag.

Nýskráningum fækkar

Í Handelsblatt er haft eftir Michael Oppermann, meðeiganda hjá Ernst & Young, að mörg fyrirtæki nýti sér staðbundna markaði og nefnir hann Brasilíu, Rússland, Indland og Kína í þessu sambandi. Rótgrónar kauphallir eru sagðar hafa liðið fyrir minnkandi nýskráningar. Í fyrra voru nær 2.000 nýskráningar í heiminum en á fyrsta fjórðungi í ár aðeins 236.

Flestar nýskráningar í Ástralíu

Kauphöllin í Ástralíu er sú kauphöll sem var með langflestar nýskráningar á fyrsta fjórðungi, eða 30. Næst koma AIM-markaðurinn í London (Alternative Investment Market) og Nasdaq í New York, hvor um sig með 9 nýskráningar. Í Singapúr voru 7 nýskráningar og 5 í Hong Kong, en í New York Stock Exchange aðeins 4 og aðeins 1 í London Stock Exchange.

Þróunin sögð munu halda áfram

Handelsblatt segir sérfræðinga telja að þessi þróun muni halda áfram, líka í Evrópu. Þar hafi til að mynda stærsta nýskráning ársins átt sér stað í Portúgal, en þar var um að ræða vindorkufyrirtækið Energias de Portugal, sem aflaði nær tveggja milljarða evra í skráningunni.