Þrettán þingmenn úr fjórum flokkum hafa lagt frumvarp um lækkun á áfengisgjaldi til smárra, sjálfstæðra bjórframleiðenda. Lagt er til að breytingin taki gildi um næstu áramót. Fyrsti flutningsmaður frumvarpsins er Albertína Friðbjörg Elíasdóttir.

Frumvarpið felur í sér að fyrir framleiðendur sem framleiða minna en milljón lítra af áfengi skuli helmingsafsláttur veittur af áfengisgjaldi. Fari framleiðsla yfir milljón lítra skal afsláttur lækka hlutfallslega uns hann fellur niður við tvo milljón lítra.

Í greinargerð með frumvarpinu segir að hér á landi séu 21 míkróbrugghús. Hafi þau aukið atvinnufjölbreytni víðs vegar um landið og aukið fjölbreytni í staðbundinni vöru. Markmið frumvarpsins sé að veita smærri framleiðendum svigrúm til að byggja upp starfsemi sína með því að fjölga starfsfólki og auka fjárfestingu í greininni.

„Tilgangur frumvarpsins er því ekki að lækka verð til neytenda heldur að veita smærri framleiðendum meira bolmagn til að stunda vöruþróun, auka fjárfestingu og stækka fyrirtæki sín,“ segir í greinargerðinni.

Fari framleiðslan umfram milljón lítra er lagt til að hann lækki um 2,5 prósentustig fyrir hverja 50 þúsund lítra sem framleiddir eru. Frumvarpið byggir á framkvæmd innan Evrópusambandsins en samkvæmt tilskipun ráðsins frá 1992 er heimilt að lækka áfengisgjöld á framleiðendur sem brugga minna en 20 milljón lítra ár hvert. Þessi leið hefur til að mynda verið farin í Danmörku, Bretlandi og Noregi.

Að baki frumvarpinu stendur stærstur hluti þingflokks Samfylkingarinnar en Ágúst Ólafur Ágústsson og Oddný G. Harðardóttir eru einu þingmenn flokksins sem eru ekki meðal flutningsmanna. Tveir þriðju þingflokks Pírata eru á frumvarpinu en þaðan vantar Helga Hrafn Gunnarsson og Halldóru Mogensen. Af þingmönnum Viðreisnar eru allir á frumvarpinu að Jóni Steindóri Valdimarssyni undanskildum.

Eini þingmaður ríkisstjórnarinnar á blaði er Vilhjálmur Árnason úr Sjálfstæðisflokki. Þingflokkar Framsóknar, Vinstri grænna, Miðflokksins og Flokks fólksins eru ekki á frumvarpinu.