Ragnhildur Helgadóttir er nýráðin forseti lagadeildar Háskólans í Reykjavík. Hún segir viðhorf til lögfræðinga hafa orðið neikvæðara eftir hrun. Hún telur að lögfræðin og lagaumhverfið sé mikið að breytast og að háskólarnir þurfi að aðlaga sig að því. Næstu árin verði krítísk í fjármögnun háskólanna. Mikilvægt er að viðhalda gæðum háskólanna því einungis sé hægt að nema íslenska lögfræði hér á landi.

Finnst þér þörf á því í svona litlu samfélagi að svona margir mismunandi háskólar bjóði upp á laganám?

„Ef við hugsum um það að við erum með landsrétt sem er séríslenskur, sem hvergi annars staðar er hægt að læra, og við erum með réttarkerfi og stjórnsýslu sem byggir á honum og þarf bæði að manna og skoða, þá er nauðsynlegt að boðið sé upp á val í laganámi á Íslandi. Lögfræði er ein fárra greina, þar sem grunnnám erlendis er ekki valkostur. Það gleymist oft í umræðunni hve fáir vinna við þetta. Það eru fjórar lagadeildir núna á landinu en þær eru allar mjög litlar. Í HR eru akademískir starfsmenn í um tólf stöðugildum, HÍ er heldur stærri og háskólarnir á Bifröst og Akureyri eru minni. Þannig að það eru einungis um fjörutíu manns allt í allt sem sinna kennslu og rannsóknum í lögfræði á landinu sem aðalstarfi, þó að vissulega séu fleiri stundakennarar. Umræða um fjölda lagadeilda finnst mér þess vegna ekki vera kjarni málsins.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .