Samkeppniseftirlitið telur að framkvæmd Capacent á rafrænni mælingu á notkun ljósvakamiðla gæti verið til þess fallin að takmarka samkeppni, einkum á markaði fyrir auglýsingar í ljósvakamiðlum. Hefur Capacent undirgengist sátt við Samkeppniseftirlitið vegna málsins.

Með ákvörðuninni eru framkvæmd mælingarinnar sett ítarleg skilyrði sem ætlað er að auðvelda þátttöku nýrra og minni ljósvakamiðla og birtingaraðila í mælingunni. Þá er með skilyrðunum leitast við að tryggja að framsetning gagna úr mælingunni skekki ekki samkeppnisstöðu ljósvakamiðla og að trúnaðarupplýsingar berist ekki á milli keppinauta vegna framkvæmdarinnar við hana.

Meðal helstu skilyrða má nefna sérstakt ákvæði um verðlagningu til nýrra og minni ljósvakamiðla og ákvæði um birtingu upplýsinga úr mælingunni. Samkeppniseftirlitið segir að í kostnaði við þátttöku í mælingunni, eins og hann hefur verið til þessa, hafi getað falist töluverð aðgangshindrun fyrir nýja og minni fjölmiðla sem hafa þurft að greiða töluvert stærri hluta af tekjum sínum fyrir þátttöku í mælingunni en stóru miðlarnir.