Engar voru til upp á tæplega 67 milljarða króna kröfur í þrotabú félagsins Smáey. Félagið var í eigu Magnúsar Kristinssonar, útgerðarmanns í Vestmannaeyjum og var mjög umsvifamikið á árunum fyrir hrun.

Félagið var m.a. móðurfélag Bergeyjar eignarhaldsfélags sem átti Toyota-umboðið, innflutningsfyrirtækið Gísla Jónsson og Yamaha á Íslandi. Bergey var sömuleiðis í ábyrgð vegna annarra félaga í eigu Magnúsar. Þar á meðal voru Bílaleiga Flugleiða, M. Kristinsson, Sólning í Kópavogi, TMH á Íslandi, Motormax og Pizza Pizza (móðurfélag Dominos á Íslandi). Þá var Smáey móðurfélag félagsins Suðurey sem átti 43% hlut í fjárfestingarfélaginu Gnúpi. Á meðal annarra eigna félagsins voru 85% hlutur í útgerðinni Bergur-Huginn, Egilsdalur ehf og fleiri félögum.

Fórnarlamb markaðsmisnotkunar

Félagið Smáey var úrskurðað gjaldþrota í héraðsdómi Suðurlands í október í fyrra. Fram kemur í Lögbirtingablaðinu í dag að skiptum á þrotabúinu lauk 12. maí síðastliðinn. Í kjölfar gjaldþrotsins í fyrra var skipt um nafn á Smáey og heitir þrotabúið Vetrarmýri í dag.

Magnús kom illa út úr hruninu efnahagslífsins haustið 2008 en útgerð hans var í fyrra seld Síldarvinnslunni upp í skuldir gagnvart gamla Landsbankanum. Í kjölfar sölunnar sagðist Magnús hafa verið fórnarlamb markaðsmisnotkunar stjórnenda gamla Landsbankans.