„Það kemur okkur mjög á óvart að svona flott fyrirtæki eins og Tal sé að bjóða upp á svona lagað, en við munum kæra það sem og Flix. is,“ segir Snæbjörn Steingrímsson, framkvæmdastjóri Samtaka myndréttarhafa á Íslandi (SMÁÍS), í samtali við Fréttablaðið. Samtökin ætla að að kæra kæra símafyrirtækið Tal og forsvarsmenn heimasíðunnar Flix.is, fyrir brot á lögum um höfundarrétt. Verið er að undirbúa málið.

Snæbjörn segir málið borðleggjandi enda höfundarréttarlögin skýr. Þar kveður meðal annars á um að það sé óheimilt, án samþykkis rétthafa, að sniðganga tæknilegar ráðstafanir til að vernda höfundarrétt og telji hann að Tal og Flix brjóti gegn lagaákvæðinu með því að bjóða upp á tæknilegar lausnir til þess að nálgast efnisveitur á borð við Netflix og Hulu.

Fréttablaðið segir að á vefsíðu Flix sé auglýstar tæknilegar lausnir gegn þóknun svo fólk geti nálgast efnisveiturnar. Það sama á við um Tal.

Fréttablaðið hefur eftir lögfræðingi að símafyrirtækið Tal stuðli að því eða hvetji til þess að einstaklingur villi á sér heimildir um það hvar hann nýtir þjónustu efnisveitunnar og gangi hann með því á svig við ákvörðun rétthafans um svæðisskiptingu en efnisveiturnar. Enginn lögfræðingur sem Fréttablaðið leitaði til þorði að fullyrða að hér væri um að ræða klárt brot á lögum um höfundarrétt.