Neytendasamtökin segja að tilkynning sem smálánafyrirtækið eCommerce 2020 ApS, sem er hluti af Kredia Group, sendi frá sér í dag um lækkun vaxta á lánunum sé viðurkenning á því að fyrirtækið hafi rukkað ólöglega háa vexti hingað til.

Í tilkynningu fyrirtækisins segist það hafa breytt vörustefnu sinni fyrir Norður Evrópu markaðinn, áður hafi það verið með breitt vöruúrval lána, en nú leggi það áherslu á vandaðar fjártæknivörur fyrir markhópa með sterkari greiðslugetu.

Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um árið 2017 skráðu nokkur smálánafyrirtækin sig í Danmörku í lok, en það ár fengu nokkur þeirra fengu sektir frá Neytendastofu. Sama ár höfðu nokkur þeirra farið í gjaldþrot hér á landi, þar á meðal Hraðpeningar og Smálán , en einnig Kredia á Íslandi en gjaldþrot þess nam 250 milljónum króna , en engar eignir fundust í búinu.

Kalla sig bæði fjármála- og fjártæknifyrirtæki

Í tilkynningunni segir að eCommerce 2020 ApS sé fjármála- pg fjártæknifyrirtæki sem einbeiti sér að mestu að skandinavískum markaði, það hafi verið stofnað árið 2016 og með höfuðstöðvar í Danmörku. Það sé jafnframt hluti af Kredia group Ltd, sem sé með höfuðstöðvar í Bretlandi og sérhæfi sig í lánalausnum.

Segir félagið að fyrstu skrefin til að lækka vextina hafi þegar verið tekin um miðjan maí þegar lokað var fyrir öll útlán sem voru hluti af eldra vöruúrvali og þess í stað hafi verið byrjað að bjóða nýju lánin sem eru á lægri vöxtum.

Niðurfyrir 53,75% vaxtalágmarkið

Samkvæmt fyrirsögn tilkynningarinnar eru nýju skammtímalánin á 53,7% vöxtum sem Neytendasamtökin segja að sé komið niður fyrir löglegt hámark árlegrar hlutfallstölu kostnaðar sem megi ekki fara yfir 50%, auk meginvaxta Seðlabanka Íslands sem eru nú 3,75%.

Þannig er tekið dæmi í tilkynningu fyrirtækisins um að nú geti viðskiptavinur fengið 20 þúsund krónur að láni og borgað hæst 719 krónur í mánaðarlega vexti fyrir þá upphæð. Segjast Neytendasamtökin fagna því að smálánafyrirtækin hætti ólöglegri starfsemi enda hafi samtökin lengi barist fyrir því að böndum verði komið á ólöglega vexti eins og þau orða það.

Þá telja samtökin yfirlýsinguna jafngilda því að fyrirtækin viðurkenni að fyrri vextir hafi verið ólöglegir og hvetja þau alla sem hafi tekið lánin krefjast endurútreikninga lána sinna og eftir tilfellum endurgreiðslu og vísa í hlekk með leiðbeiningum um fyrstu skrefin í þá átt.

Strangari reglur en áður fyrir undir 25 ára

„Við virðum óskir og væntingar sem tengjast þeirri hröðu þróun sem hefur verið að eiga sér stað í síbreytilegu umhverfi EFTA markaðarins og snýr að lánum og fjártengdum vörum fyrir Norður-Evrópu markað. Þess vegna ákváðum við að einbeita okkur að breiðari kúnnahóp og bjóða honum upp á einfaldar lánalausnir,“ segir Ondřej Šmakal, forstjóri Kredia Group Ltd. um breytingarnar.

„Við ákváðum líka að halda áfram að vinna eftir nákvæmu lánshæfismati lánaumsækjenda til að stuðla að jafnvægi í lánaumhverfi Norður-Evrópu. Til að fá lán hjá okkur þarftu til dæmis að vera orðinn 20 ára og allt til 25 ára aldurs höfum við strangari reglur en við höfðum áður um lántöku.“

Hér má lesa fleiri fréttir um smálánafyrirtæki: