Neytendastofa hefur ákveðið að sekta smálánafyrirtækin Kredia og Smálán um 250 þúsund krónur hvort. Þá fær Neytendalán ehf, rekstraraðili Múla, Hraðpeninga og 1909, 750 þúsund króna sekt. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Neytendastofu.

Smálánafyrirtækjunum er gefið að sök að rukka viðskiptavini um of háan kostnað og brjóta þannig gegn neytendalögum. Samkvæmt lögunum má árleg hlutfallstala kostnaðar (ÁHK) í neytendalánum, þ.e. allur kostnaður af láninu gefinn upp í einni prósentutölu, ekki vera hærri en 50% að viðbættum stýrivöxtum. Einnig skulu lánveitendur veita lántakendum allar  upplýsingar um lánið í lánssamningi, m.a. upplýsingar um ÁHK.

Smálánafyrirtækin bjóða neytendum upp á að fá lánshæfismat afgreitt á einni klukkustund, í þeim tilgangi að fá lánið greitt út strax. Fyrir þessa flýtiþjónustu þurfa viðskiptavinir þó að borga aukalega, kostnað sem smálánafyrirtækin hafa ekki tekið með í útreikninginn. Í tilkynningunni frá Neytendastofu segir að kostnaður við gerð lánshæfismats teljist sem hluti af heildarlántökukostnaði og eigi því að vera innifalinn í útreikningi á ÁHK. Þegar kostnaðurinn við flýtimeðferðina er tekinn með í reikninginn verður ÁHK hjá fyrirtækjunum mun hærri en 50%, eða 3.214% hjá Kredia og Smálánum og  2.036,6% hjá Múla, Hraðpeningum og 1909. Í þessu felst lögbrotið og því hljóta fyrirtækin sekt, samtals að upphæð 1,25 milljón.