*

föstudagur, 25. september 2020
Innlent 8. júní 2014 09:05

Smálánafyrirtækin sektuð

Fimm smálánafyrirtækjum gefið að sök að rukka viðskiptavini of mikið og brjóta þannig neytendalög.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Neytendastofa hefur ákveðið að sekta smálánafyrirtækin Kredia og Smálán um 250 þúsund krónur hvort. Þá fær Neytendalán ehf, rekstraraðili Múla, Hraðpeninga og 1909, 750 þúsund króna sekt. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Neytendastofu.

Smálánafyrirtækjunum er gefið að sök að rukka viðskiptavini um of háan kostnað og brjóta þannig gegn neytendalögum. Samkvæmt lögunum má árleg hlutfallstala kostnaðar (ÁHK) í neytendalánum, þ.e. allur kostnaður af láninu gefinn upp í einni prósentutölu, ekki vera hærri en 50% að viðbættum stýrivöxtum. Einnig skulu lánveitendur veita lántakendum allar  upplýsingar um lánið í lánssamningi, m.a. upplýsingar um ÁHK.

Smálánafyrirtækin bjóða neytendum upp á að fá lánshæfismat afgreitt á einni klukkustund, í þeim tilgangi að fá lánið greitt út strax. Fyrir þessa flýtiþjónustu þurfa viðskiptavinir þó að borga aukalega, kostnað sem smálánafyrirtækin hafa ekki tekið með í útreikninginn. Í tilkynningunni frá Neytendastofu segir að kostnaður við gerð lánshæfismats teljist sem hluti af heildarlántökukostnaði og eigi því að vera innifalinn í útreikningi á ÁHK. Þegar kostnaðurinn við flýtimeðferðina er tekinn með í reikninginn verður ÁHK hjá fyrirtækjunum mun hærri en 50%, eða 3.214% hjá Kredia og Smálánum og  2.036,6% hjá Múla, Hraðpeningum og 1909. Í þessu felst lögbrotið og því hljóta fyrirtækin sekt, samtals að upphæð 1,25 milljón.