Smálánafyrirtækin 1909, Hraðpeningar, Kredia og Smálán hafa ákveðið að setja þak á útlán til einstaklinga. Þau geta ekki orðið hærri en 80 þúsund krónur. Þetta þýðir að einstaklingur getur hvorki tekið hærri upphæð að láni hjá einu smálánafyrirtæki eða hjá fyrirtækjunum öllum. Þá verður sömuleiðis ekki hægt að taka fleiri en níu lán hjá fyrirtækjunum á ári.

Fram kemur í tilkynningu frá Útlánum, samtökum fjármálafyrirtækja án umsýslu fjármuna annarra, sem haldinn var í dag að Creditinfo muni miðla upplýsingum til allra smálánafyrirtækjanna sem starfa á Íslandi í dag svo tryggja megi að enginn einstaklingur geti tekið meira en 80.000 krónur að láni -- samanlagt -- hjá öllum smálánafélögunum.

Í tilkynningunni er jafnframt haft eftir Hauki Erni Birgisson, lögmanni Útlána, að hugmyndin sé að tryggja að fólk lendi ekki í vítahring smálána, eins og talin hafi verið hætta á.

„Reynsla félaga innan Útlána er að fólk úr öllum krókum og kimum samfélagsins hefur nýtt sér þessa þjónustu til þess að bregðast við óvæntum útgjöldum þegar sigið hefur á seinni helming mánaðarins. Undir slíkum kringumstæðum geta smálán nýst vel, en við ráðum fólki frá því að fjármagna sig með þessum hætti til langframa. Með þessum breytingum er komið í veg fyrir að fólk lendi í vandræðum með þessi lán og taki til dæmis eitt smálán til þess að greiða upp annað og lendi þannig í þessum umtalaða vítahring,“ segir hann.

Til að hnykkja á mikilvægi þessara breytinga var samþykkt að ákvæði um 80.000 króna hámarkslán yrði sett inn í siðareglur Útlána. Þá var samþykkt að félögunum beri skylda til þess að upplýsa lánþega, sem hafa sótt um meira en sex lán á 12 mánaða tímabili, hvert þeir geta leitað til þess að fá langtímafjármögnun og þeim jafnframt ráðið frá því að taka fleiri smálán. Ekki verður hægt að fá meira en níu smálán á 12 mánaða tímabili. Búið er að innleiða breytinguna nú þegar hjá öllum aðildarfélögum Útlána og gert er ráð fyrir að kerfi Creditinfo hf. verði virkt innan 30 daga.