Forráðamenn Kredia ehf., sem kynnti nýjung í lánaviðskiptum fyrir helgi, munu funda með neytendasamtökunum, talsmanni neytenda og Fjármálaeftirlitinu á morgun. Að sögn Leifs A. Haraldssonar, framkvæmdastjóra Kredia, er um að ræða upplýsingafund til að kynna starfsemi félagsins.

Þess má geta að lánastarfsemi eins og sú sem Kredia býður uppá er ekki háð leyfum FME.

Hægt er að fá lánaðar 10.000 krónur í 15 daga og er borgað fyrir það 2500 krónur í vexti. Ef það hefur gengið getur viðskiptavinurinn fengið 20.000 krónur lánðara og þannig upp í 40.000 krónur en hærri lán fást ekki. Fylgst er með því á hverjum degi hvort menn eru komnir á vanskilaskrá. Að sögn Leifs eru þægindin við þessi lán mikil en fyrir vikið borga menn háa vaxtaprósentu.

Þjónustan er ætluð fjárráða einstaklingum 18 ára og eldri sem ekki eru á vanskilaskrá.