*

mánudagur, 14. júní 2021
Innlent 9. desember 2017 10:02

Smálánafyrirtækin segjast nú vera dönsk

Smálánafyrirtækin eru nú í rekin af dönsku fyrirtækisins ef marka má vefsíður félaganna.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Smálánafyrirtækin Hraðpeningar, Múla, Smálán 1909 og Kredia eru nú í eigu danska fyrirtækisins Ecommerce 2020 ef marka má vefsíður félaganna sem nú bera dönsku lén endinguna .dk.

Félagið E-content ehf. var fyrr á þessu ári sektað um 10 milljónir króna af Neytendastofu sem rekstraraðili smálánafyrirtækja fyrir lántökukostnað umfram það sem lög leyfa með því að selja bækur samhliða lánveitingum. Áfrýjunarnefnd neytendamála staðfesti ákvörðun Neytendastofu í nóvember síðastliðnum. E-content var sektað um 2,4 milljónir króna árið 2016 vegna sama athæfis. 

E-content hefur vísað hluta málsins sem snýr að því að kaupverð bóka falli undir lántökutökukostnað til Héraðsdóms Reykjavíkur. Matthildur Sveinsdóttir, lögfræðingur hjá Neytendastofu, segir að Neytendastofa sé meðvituð um málið. „Það virðist vera danskur aðili á bak við þessi fyrirtæki og lénin eru hýst í Danmörku, “ segir Matthildur. Bæði íslensk og dönsk lén smál­ánafyrirtækjanna eru skráð í eigu tékkneska félagsins Verrier Group a.s. sem skráð er með heimilisfang í Prag. Þá bendir Matthildur á að fyrirtæki sem séu með starfsemi hér á landi þurfi að lúta íslenskum lögum. „Það sem er markaðssett á Íslandi þarf að fara eftir íslenskum lögum. Þannig að það gilda alveg sömu reglur gagnvart þessum fyrirtækjum þegar þau eru að veita lán á Íslandi og gilda fyrir íslensk fyrirtæki.“

Spurð hvort Neytendastofa geti haft boðvald yfir dönskum félögum segir hún að það þurfi að fara yfir að­ stæður í hverju og einu tilviki. „Við erum í samstarfi við systurstofnanir okkar í Evrópu um málefni sem varða innleiðingar á tilskipunum EES sem lög um neytendalán falla undir.“

Smálánafélögin margoft sektuð

Hins vegar eru sérákvæði í íslensku neytendalögunum að sögn Matthildar. Til að mynda ákvæði um að árleg hlutfallstala kostnaðar má ekki vera meira en 50% af heildarlánsfjárhæð að viðbættum stýrivöxtum Seðlabankans. Árleg hlutfallstala kostnaðar segir til um heildarkostnað af láni á ársgrundvelli og nær bæði til vaxta og lántökukostnaðar. Neytendastofa hefur á síðustu árum lagt fjölmargar sektir á smálánafyrirtækin fyrir að brjóta þetta ákvæði. Neytendastofa gangi ekki út frá því að danska fyrirtækið brjóti lög. „Á vefsíðunum sjáum við ekki ennþá hvort verið sé að brjóta gegn þessu ákvæði svo því sé haldið til haga. Við erum ekki að gera ráð fyrir því að þarna sé verið að brjóta gegn því ákvæði,“ segir Matthildur.

Öll félögin rekin af sama aðila

Töluvert hefur verið fjallað um eignarhald smálánafyrirtækjanna á síð­ ustu árum. Árið 2014 var talað um að tvær blokkir væru á markaðnum. Hraðpeningar, 1909 og Múla væru í eigu félagsins Jumdon Finance Ltd á Kýpur en undir framkvæmdastjórn Óskars Þorgils Stefánssonar.

Hin blokkin samanstæði af félögunum Kredia og Smálánum. Félögin virð­ ast nú öll vera undir sömu stjórn. Óskar er stjórnarformaður og framkvæmdastjóri E-content en takmarkaðar upplýsingar liggja fyrir um eignarhald félagsins sem ekki hefur skilað ársreikningi vegna ársins 2016. Óskar var um áramótin skráður eigandi félagsins IGD ehf. sem áður hét Neytendalán ehf. Neytendalán voru sektuð um 750 þúsund krónur árið 2015 vegna of hás lánskostnaðar smálánafyrirtækjanna Múla, Hraðpeninga og 1909. Þá er virðisaukaskattsnúmer E-content skráð sem vánúmer á vef ríkisskattstjóra. Ekki náðist í Óskar við vinnslu fréttarinnar.

Fjallað er um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð

Stikkorð: Kredia Múla Hraðpeningar Smálán 1909