Eignarhaldsfélagið Smáralind ehf., dótturfélag Regins, var í Héraðsdómi Reykjaness í dag sýknað af öllum kröfum Norðurturnsins hf. um viðurkenningu á kvöð um samnýtingu bílastæða, samnýtingu fráveitulagna og gagnkvæman umferðarrétt á lóð Hagasmára 1 (Smáralind) og að sú kvöð veiti Norðurturninum hf. rétt til nýtingar á bílastæðum á lóðinni. Landsréttur hafði áður fellt úr gildi úrskurð Héraðsdóms Reykjaness um frávísun málsins og er því um efnismeðferð í málinu að ræða. Í málinu sem dæmt var í dag var einnig vísað frá kröfum Norðurturnsins hf. á hendur Kópavogsbæ um að deiliskipulag Smárans vestan Reykjanesbrautar yrði fellt úr gildi. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Reginn.

Í forsendum dómsins kemur fram að ekkert í gögnum málsins styðji þá fullyrðingu Norðurturnsins hf. að samið hafi verið um gagnkvæma samnýtingu bílastæða á lóðunum Hagasmára 1 og 3. Þvert á móti var hluti söluverðs lóðarinnar Hagasmára 3, og eitt af skilyrðum fyrir sölunni, að gerður yrði samningur þar sem m.a. kæmi fram að hluti af söluverðinu væri afnotaréttindi Smáralindar af bílastæðum í bílastæðahúsi Norðurturnsins.

Norðurturninum hf. var gert að greiða hvorum aðila 3.000.000 kr. í málskostnað. Ekki liggur fyrir hvort dóminum verði áfrýjað af hálfu Norðurturnsins. Í samræmi við fyrri upplýsingar þá hefur niðurstaða dómsmálsins óverulega fjárhagslega þýðingu fyrir félagið.