Tap Smáralindar nam 101 milljón króna á árinu 2005. Tap fyrirtækisins árið áður nam 43 milljónum, segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði nam 684 milljónum, það er um 14% aukning frá fyrra ári.

Heildarvelta í verslunarmiðstöðinni jókst um 15% á milli ára sem er umtalsvert meira en sem nam aukningu í smásöluverslun á landinu öllu en áætlað er að hún hafi verið 5%, segir í tilkynningu.

Heildareignir í árslok 2005 námu 10.028 milljónum króna, þar af nam bókfært verð verslunar-miðstöðvarinnar Smáralindar 9.593 milljónum króna.

Eigið fé er 1.754 milljónir en var 1.856 milljónir árið áður.
Í lok tímabilsins var eiginfjárhlutfall félagsins 45% að teknu tilliti til víkjandi láns frá móðurfélaginu, árið áður var hlutfallið 44%.

Veltufé frá rekstri nam 419 milljónum króna og handbært fé frá rekstri nam 443 milljónum króna.

18,5 milljónir gesta

Það hafa um 18,5 milljónir gesta komið í Smáralind frá því að verslunarmiðstöðin var opnuð fyrir rúmum 4 árum. Á árinu 2005 komu 4,4% fleiri gestir í Smáralind en árið þar á undan.

Það sem af er þessu ári hefur gestafjöldinn aukist um rúm 9% og heildarveltan um 16-17% miðað við sama tíma í fyrra, segir í tilkynningu.

Áætlað er að afkoma af rekstri félagsins fyrir fjármagnsliði muni batna á þessu ári, meðal annars vegna nýrra leigusamninga, hækkandi leiguverðs og áhrifa aukinnar veltu á veltutengda leigusamninga.

Mikil og stöðug eftirspurn er eftir húsnæði í verslunarmiðstöðinni og nú liggja fyrir rúmlega 200 fyrirspurnir um laust leiguhúsnæði. Þá hefur leiguverð farið stöðugt hækkandi eftir að það náði lágmarki á miðju ári 2003.