Reginn hf. barst í dag ákvörðun Hæstaréttar Íslands um að beiðni félagsins, f.h. Eignarhaldsfélags Smáralindar ehf., um leyfi til að áfrýja dómi Landsréttar í málinu Norðurturninn hf. gegn Eignarhaldsfélaginu Smáralind ehf. og Kópavogsbæ, hafi verið samþykkt. Frá þessu er greint í fréttatilkynningu

Með dómi Landsréttar var viðurkennd kvöð sem veitti Norðurturninum hf. rétt til nýtingar bílastæða á lóðinni við Hagasmára 1. Eignarhaldsfélagið Smáralind óskaði í kjölfar dómsins eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dóminum. Norðurturninn hf. lagðist gegn beiðninni en Kópavogsbær taldi að taka ætti hana til greina.

Beiðni um áfrýjunarleyfi var veitt að virtum gögnum málsins þar sem Hæstiréttur taldi að líta yrði svo á að dómur í máli þessu myndi hafa almennt gildi um stofnunarhætti kvaða. Endanleg niðurstaða málsins bíður því dóms Hæstaréttar.

Í fyrri tilkynningum frá félaginu hefur komið fram að dómsmálið hafi óveruleg fjárhagsleg áhrif á Reginn og dótturfélög enda ekki höfð uppi fjárkrafa í málinu. Þá hefur málareksturinn ekki haft áhrif á uppbyggingaráform á svæði Smárans vestan Reykjanesbrautar (Smárabyggð).