Fjárhagslegri endurskipulaginu Smáralindar ehf. er nú að ljúka með samningum við lánveitendur félagsins um tímabundna frestun á greiðslu afborgana samkvæmt gildandi lánasamningum.

Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar en samkvæmt ársreikningi Eignarhaldsfélagsins Smáralindar ehf. fyrir árið 2008 hefur Smáralind átt í viðræðum við lánveitendur um endurfjármögnun félagsins.

Fram kemur í tilkynningunni að lokið er við skilmálabreytingar á skuldabréfaflokk SMLI 01 1 sem skráður var þ. 27. Desember 2001. Einnig er lokið við skilmálabreytingar á svokölluðu sambankaláni þar sem Frjálsi fjárfestingabankinn hf., Íslandabanki hf., NBI hf.og Byr sparisjóður eru lánveitendur.

Þá kemur einnig fram að verið er að ljúka við skilmálabreytingu á lánasamning þar sem Nordic Investment Bank (NIB) er lánveitandi.

„Félagið er ánægt með þessa niðurstöðu,“ segir í tilkynningunni.

„Staða félagsins er sterk, tekjur ársins 2009 voru yfir áætlun og fjármagnsskipan þess til næstu ára hentar rekstrinum vel.“

Í lok síðasta árs varð dótturfélag NBI hf. Reginn ehf. eigandi félagsins. Fram kemur í tilkynningunni að nýr eigandi hyggst selja félagið í opnu söluferli á fyrripart ársins.