Smári McCarthy, fulltrúi Pírata í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis segir ekkert liggja á því að selja hlut ríkisins í bönkunum og fyrir því engin góð rök.

„Ríkisskuldirnar eru ekkert það háar miðað við löndin í kringum okkur heldur er vaxtastigið rosalega hátt og það lækkar ekki með þessu,“ segir Smári í frétt RÚV um málið.

„Jafnvel ef að við gætum fengið fullt verð fyrir bankana, sem væru þá sex til sjö hundruð milljarðar, jafnvel þá væri það ekki það skynsamlega í stöðunni því við gætum frekar einbeitt okkur að því að lækka vextina og nýta arðgreiðslurnar til að vera með frekari skuldalækkanir hjá ríkissjóði.“

Segir Smári það óskynsamlegt að selja bankana núna því þá fáist ekki fullt verð fyrir þá sem verði ekki fyrr en á næsta áratugi.

„Það að selja bankana á einhverju undirverði, og yfirleitt bara í hefðbundinni einkavinavæðingu, væri ekki gott fyrir þjóðina, það er ekki gott fyrir ríkissjóð og í rauninni er það algjörlega óskynsamlegt.“