Smári McCarthy, þingmaður Pírata, hefur lagt fram fyrirspurn ti fjármála- og efnahagsráðherra um skilgreiningar á hugtökum í 154. gr. almennra hegningarlaga en sú grein heyrir undir gjaldmiðlamál, peningafals og önnur brot.

Þannig spyr hann í fyrsta lagi um hvernig handhafabréf, erlendur peningaseðill, gjaldmiðill, að búa til, að flytja inn og að láta úti séu skilgreint en þetta eru allt hugtök sem koma fram í 154. greininni sem má sjá hér að neðan.

Þá spyr Smári einnig hvort tilteknir hlutir gætu fallið undir téða 154. grein í einhverjum skilninig en þeir eru spilapeningar úr Monopoly-spilinu, mjólkurmiðar gefnir út af skóla, ávísun á erlenda bankainnistæðu, útprentun á tölvupósti með loforði um greiðslu í framtíðinni, flugpunktar hjá flugfélagi sem heimilar millifærslur milli viðskiptavina og inneignarnótu frá verslun sem stílur er á handhafa.

154. gr.: Sektum eða [fangelsi] 1) allt að 3 mánuðum skal sá sæta, sem án heimildar í lögum býr til, flytur inn eða lætur úti handhafabréf, sem notuð kunna að verða til þess að ganga sem gjaldmiðill manna á milli, hvort heldur almennt eða innan sérstaks flokks manna, eða vænta má, að notuð verði á þann hátt. Ákvæði þessarar greinar taka ekki til erlendra peningaseðla.