Fyrirtækið Smart Socks hefur verið í stöðugum vexti frá stofnun þess og stefnir á næstunni á að færa út kvíarnar og bjóða upp á þjónustu sína á erlendum mörkuðum. „Það er erlendur aðili í Barcelona sem hafði samband við okkur, eftir að hafa séð vörumerkið okkar, sem við hönnuðum sjálfir frá grunni. Honum leist frábærlega á vörumerkið okkar. Hann er búinn að fá send sýnishorn af sokkunum okkar og við höfum einnig sýnt honum viðskiptaáætlun okkar. Nú er allt á fullu hans megin að gera samninga við vöruhús, varðandi sendingar og póstdreifingu. Svo erum við samhliða þessu að skoða það að finna aðra framleiðendur af sokkunum, sem væri betur í stakk búinn til að taka við stærri pöntunum frá okkur,“ segir Guðmundur Már Ketilsson, annar af stofnendum og eigendum Smart Socks.

„Þessi erlendi aðili mun væntanlega verða sérleyfishafi Smart Socks, sem þýðir að hann mun greiða okkur fyrir að mega selja vöruna okkar erlendis undir okkar vörumerki. Þetta lítur mjög spennandi út. Við erum búnir að tryggja okkur vel með einkaleyfum og eigum í rauninni vörumerkið Smart Socks í Evrópu og sömuleiðis á Íslandi. Við erum með einkaleyfi á vörumerkinu og myndmerki þess hér á landi og erum með umsókn um eins einkaleyfi fyrir Evrópumarkaðinn. Ef allt gengur eftir eins og við höfum áætlað þá mun vörumerkið okkar vera komið erlendis strax í haust, nánar tiltekið í september. Við ætlum að taka eitt land fyrir í einu og ef vel gengur verðum við komnir á markað á Spáni, í Portúgal, Frakklandi og á Ítalíu í lok núverandi árs. Við munum byrja á spænska markaðnum og vinna okkur svo út á hina markaðina í kjölfarið,“ segir Guðmundur.

Bjóða upp á sokkaáskrift

„Við hófum starfsemina í ágúst í fyrra, fyrirtækið er því að verða ársgamalt. Við báðir sem eigum fyrirtækið erum miklir sokkamenn. Ég fékk hugmyndina að fyrirtækinu þegar ég var í heimsókn hjá vini mínum í Danmörku, en hann sagði mér að hann væri að fá sokka senda heim mánaðarlega. Þannig kviknaði hugmyndin. Ég hef sjálfur verið í fyrirtækjarekstri áður og ákvað þegar ég kom heim frá Danmörku að viðra þessa hugmynd við félaga minn, Gunnstein Geirsson. Í kjölfarið fórum við af stað með þetta og höfðum samband við grafískan hönnuð, sem hannaði einkennismerki fyrirtækisins með okkur og eftir það fór boltinn að rúlla,“ segir Guðmundur

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .