Íslenska hugbúnaðarfyrirtækið App Dynamic hefur gengið frá samningi við Smart Technologies, leiðandi framleiðanda í snjalltöflum og snertiskjám. AirServer hugbúnaður App Dynamic gerir nú notendum Smart TeamWorks kleift að spegla hljóð og mynd frá skjánum á tölvum og snjalltækjum þráðlaust yfir á Smart snjalltöflur.

„Samstarfið við Smart er stór áfangi í því markmiði okkar að gera AirServer tæknina innbyggða í tæki frá leiðandi framleiðendum. Við höfum á síðustu árum náð miklum árangri að selja AirServer fyrir Windows og Mac. Stærstu tækifærin framundan eru í okkar eigin vélbúnaðarlausn, AirServer Connect, og því að hafa AirServer innbyggðan í búnað annara. Nú þegar er AirServer einnig í boði fyrir Microsoft Surface Hub, Xbox, Intel Unite og Philips hótelsjónvörp, en krefst þess að notendur kaupi hugbúnaðinn og setji upp. Með því að hafa tæknina innbyggða getum við náð til mun fleiri notenda og gert upplifunina áreynslulausa. Við erum í samningaviðræðum við marga af stærstu skjá- og tölvuframleiðendum heims og eigum von á að AirServer verði í lausnaframboði þeirra á næstu mánuðum.“ segir Pratik Kumar, stofnandi og forstjóri App Dynamic.

App Dynamic er íslenskt hugbúnaðarfyrirtæki stofnað 2011 og er brautryðjandi í þráðlausri móttöku á skjáefni frá öllum gerðum tölva og snjalltækja án þess að setja þurfi upp hugbúnað á tækjunum sem senda. AirServer sameinar þrjár ríkjandi aðferðir, AirPlay, Google Cast og Miracast í einn móttakara og leysir þannig vandamál með skjásnúrur í fundarherbergjum, skólastofum og öllum stöðum þar sem þarf að varpa upp mynd frá tölvum og snjalltækjum.

App Dynamic hefur verið í þremur efstu sætum Deloitte Technology Fast 50 um þau tæknifyrirtæki sem vaxa hraðast á Íslandi undanfarin þrjú ár og er á lista Financial Times yfir hraðast vaxandi fyrirtæki í Evrópu.

Smart Technologies er kanadískt tæknifyrirtæki í eigu Foxconn sem er einn þekktasti framleiðandi raftækja í heiminum. Smart var fyrsta fyrirtækið á markað með snjalltöflur fyrir skjávarpa og er í dag með stærsta markaðshlutdeild framleiðanda á markaði fyrir stóra snertiskjái.