*

mánudagur, 1. mars 2021
Fólk 21. september 2020 16:36

Smartmedia ráða þrjá starfsmenn

Snædís Malmquist Einarsdóttir, Ragnheiður Harpa Haraldsdóttir og Sunna Þorsteinsdóttir eru nýjar hjá Smartmedia.

Ritstjórn
Snædís Malmquist Einarsdóttir er nýr sjónrænn hönnuður, Ragnheiður Harpa Haraldsdóttir er nýr markaðsstjóri og Sunna Þorsteinsdóttir er vefhönnuður hjá Smartmedia.
Aðsend mynd

Smartmedia hefur gengið frá ráðningu á þremur nýjum starfsmönnum, þeim Sunnu Þorsteinsdóttur, Ragnheiði Hörpu Haraldsdóttur og Snædísi Malmquist Einarsdóttur..

Sunna Þorsteinsdóttir hóf nýlega störf hjá Smartmedia sem vefhönnuður. Hún lauk BA-gráðu í listrænni stjórnun frá University of Arts í London árið 2014 og starfaði þar eftir í tvö ár sem verkefnastjóri hjá framleiðslufyrirtækinu Hungry Tiger en til þeirra kúnna teljast stórfyrirtæki á borði við Jimmy Choo, Hugo Boss og Tom Ford.

Árið 2016 flutti Sunna aftur til Íslands þar sem hún var sjálfstætt starfandi þar til hún tók þátt í uppbyggingu og stofnun hönnunarstofunnar Ferðavefir sem sérhæfir sig í vinnslu fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustu. Þar leiddi hún stefnumótun og verkefnastýringu fyrirtækisins.

„Ég hef víðtækan áhuga á öllu sem tengist vefum, viðmóti, stafrænni hönnun og lausnum og það verður mjög spennandi að fá að taka þátt í öllu því virka og nútímalega starfi sem unnið er hjá Smartmedia,” segir Sunna.

Ragnheiður Harpa Haraldsdóttir hefur hafið störf sem stafrænn markaðsstjóri hjá Smartmedia. Hún er nýflutt til Íslands eftir tveggja ára búsetu í London þar sem hún lagði stund á nám í miðlun og samskiptum við Goldsmiths University. Áður hafði hún lokið BA-gráðu í mannfræði með fjölmiðlafræði sem aukagrein frá Háskóla Íslands.

Samhliða grunnnámi starfaði Ragnheiður Harpa hjá Bláa Lóninu en eftir grunnnám tóku við tæplega þrjú ár hjá Arctic Adventures þar sem hún leiddi samfélagsmiðla og efnissköpun. Frá London hefur hún unnið sem textahöfundur fyrir Iceland Travel ásamt íslenskukennslu fyrir íslensk börn búsett í Bretlandi.

„Ég er alveg ótrúlega spennt fyrir komandi misserum hjá Smartmedia. Hér er mikil þekking, reynsla og jákvæðni. Það er mikill heiður að fá að ganga til liðs við hópinn og taka þátt í að færa þjónustustigið enn ofar og halda áfram að bæta árangur fyrir okkar viðskiptavini,” segir Ragnheiður Harpa.

Snædís Malmquist Einarsdóttir hefur verið ráðin sem sjónrænn hönnuður hjá Smartmedia. Hún hefur lokið diplómu í miðlun og samskiptahönnun frá University of Arts í London og BA-gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands. Eftir útskrift flutti Snædís til Stokkhólms þar sem hún starfaði við rannsóknir og hönnun við Design Galleriet.

Eftir dvölina í Svíþjóð hélt hún heim til Íslands þar sem hún hóf störf hjá Ferðavefum en þar starfaði hún í tæp þrjú ár. Hennar helstu verkefni vörumerkjastjórnun, umbrot og hönnun fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustu.

„Ég hef brennandi áhuga á allri sjónmenningu ásamt lestri í myndir og tákn sem nýtist mér vel þegar kemur að sköpun áhrifaríkra vörumerkja. Ég er viss um að reynsla mín og áhugi muni passa vel við þá sköpun sem á sér stað innan Smartmedia og hlakka til að hefjast handa,” segir Snædís Malmquist.

Hjörvar Hermannsson, framkvæmdastjóri Smartmedia segist mjög ánægður með að fá þessar kraftmiklu konur til starfa.

„[M]unu þær tvímunalaust styrkja stoðir okkar og hjálpa til við að auka gæði þjónustu,“ segir Hjörvar. „Smartmedia og netverslun almennt hefur verið í miklum vexti undanfarið og og þessar ráðningar er liður í því að styðja við þann vöxt. Með þessum ráðningum erum við markvisst að stækka þjónustuframboðið okkar með því markmiði að hjálpa viðskiptavinum okkar að ná ennþá betri árangri í netverslun sinni.“