Smásala dróst óvænt saman um 0,2% í júní í Bandaríkjnunum eftir að spár höfðu gert ráð fyrir 0,1% vexti. Er þetta annar mánuðurinn í röð þar sem velta í smásölu dregst saman í Bandaríkjunum en hún dróst saman um 0,1% í maí.

Samkvæmt frétt Bloomberg eru tölurnar taldar gefa það til kynna að bandarískir neytendur séu að halda að sér höndum þegar kemur að eyðslu og muni það verða til þess að hagvöxtur í landinu verði ekki jafn mikill á öðrum ársfjórðungi þessa árs eftir nokkuð veikan hagvöxt á fyrsta ársfjórðungi.

Framleiðsla í verksmiðjum í Bandaríkjunum jókst um 0,2% í júní eftir að hafa dregist saman um 0,4% í mánuðinum á undan. Voru tölurnar í samræmi við spár greiningaraðila. Rétt í þessu voru svo verðbólgutölur í landinu fyrir júní birtar. Verðbólga stóð í stað í júnímánuði og er lækkun á olíuverði og farsímaþjónustu talin hafa haldið aftur af verðbólgu. Verðbólga í landinu er nú 1,6% sem er undir verðbólgumarkmiði Seðlabanka Bandaríkjanna um 2% verðbólgu.