Smásala í Bandaríkjunum dróst saman um 0,1% í júlí samkvæmt upplýsingum frá viðskiptaráðuneyti Bandaríkjanna sem birtar voru í dag.

Þetta er í fyrsta skipti í fimm mánuði sem smásala dregst saman milli mánaða en þó í takt við væntingar greiningaraðila.

Þá greinir Reuters fréttastofan frá því – og hefur eftir viðmælendum sínum – að svo virðist sem bandarískir neytendur séu nú að bregðast við þeim verðhækkunum sem orðið hafa á vörum síðustu mánuði.

Verð á innfluttum vörum jókst um 1,7% í júlí og hefur aukist um 21,6% milli ára og er það mesta árshækkun í 26 ár að sögn Reuters. Þá hefur verð á innfluttri hráolíu aukist um 79% á milli ára.

Mest minnkaði sala á bifreiðum og varahlutum eða um 2,4% en hafði að vísu dregist saman um 2,1% í júní.

Sé sá hluti aðskilin jókst smásala um 0,4% í júlí sem er eilítið undir spám greiningaraðila en sala á vörum utan bifreiða og varahluta hafði aukist um 0,9% í júni.

Þá hefur Reuters eftir viðmælanda sínum að vegna hækkandi eldsneytisverð séu neytendur heldur ekki að fjárfesta í nýjum bifreiðum en það vegur nokkuð þungt þegar tölur um smásölu eru teknar saman.