Smásala dróst óvænt saman á Evrusvæðinu í janúar, segir greiningardeild Kaupþings banka. Árstíðarleiðrétt gildi smásöluvísitölu Bloomberg fyrir Evrusvæðið lækkaði um 5% milli mánaða.

Hátt olíuverð og óvissa um atvinnuástand er talið eiga sök á samdrætti í neyslu.

Samdrátturinn var mestur í Frakklandi, eða um 16%. Það er næst stærsta hagkerfi Evrusvæðisins.

Hagvöxtur Evrusvæðisins árið 2005 mældist einungis 1,4%. Neyslan er 2/3 af framleiðslu í hagkerfinu, því eru tölur um smásölu í janúar áhyggjuefni.

Seðlabankinn í Evrópu reiknar með því að hagvöxtur verði í kringum 1,9% á þessu ári.

Þrátt fyrir óvæntan samdrátt í smásölu gera markaðsaðilar enn ráð fyrir að Seðlabankinn í Evrópu hækki vexti um 25 punkta í mars, segir greiningardeildin.