Smásala í Bretlandi dróst saman annan mánuðinn í röð í apríl. Þetta er í fyrsta sinn í meira en tvö ár sem það gerist.

Sala minnkaði um 0,2% í apríl og um 0,4% í mars, en búist var við 0,5% minnkun í apríl. Á ársgrundvelli er aukning smásölu nú 4,2% í Bretlandi. Sala í matvörubúðum minnkaði um 1% milli mánaða en önnur smásala jókst um 0,2%. Sala tölvuleikja jókst sérstaklega eftir að Grand Theft Auto 4 kom út.

Smásalar hafa skorað á Englandsbanka að lækka stýrivexti meira til að auka sölu, en það er ólíklegt að við því verði orðið samkvæmt frétt BBC, enda verðbólguþrýstingur að aukast.