Smásala í Bandaríkjunum jókst óvænt í janúar um 0,3%, en greiningaraðilar og sérfræðingar höfðu búist við allt að því 0,4% samdrætti. Þessi tíðindi slá eilítið á miklar áhyggjur þess efnis að stærsta hagkerfi heims sé á leið inn í hnignunarskeið, að því er Bloomberg segir frá. Í desember mældist samdráttur í smásölu um 0,4%. Aukninguna má fyrst og fremst rekja til bifreiðakaupa, fatnaðar og eldneytis, að því er bandaríska viðskiptaráðuneytið greindi frá. Eftirspurn neytenda, sem telur alls 70% af hagkerfinu, er engu að síður talin munu dragast lítið eitt saman á næstu mánuðum, sem mun að öllum líkindum neyða Ben Bernanke til að lækka vexti enn frekar.